Reykjavík Whale Watching Massacre (2009)

Háðslegt þjóðernisramb og kynremba

Reykjavík Whale Watching Massacre. Júlíus Kemp leikstýrir, Sjón semur handrit, aðalhlutverk: Gunnar Hansen, Pihla Viitala, Helgi Björnsson (2009, 90 mín).

Reykjavík Whale Watching Massacre

,,Hrein náttúra, hrein fegurð, hrein martröð.“ Þannig hljóða slagorðin fyrir fyrsta íslenska spennutryllinn sem kynntur var til sögunnar árið 2009.

Myndin fékk vægast sagt skelfilega dóma en gagnrýnendur voru einróma um að Reykjavík Whale Watching Massacre stæðist ekki viðmið greinarinnar sem slíkrar og minnti um of á gamanmynd.

Í grein sinni ,,Undir hnífnum: Fagurfræði slægjunnar og Reykjavík Whale Watching Massacre’’ kryfur Guðni Elíasson gagnrýnina til mergjar og sýnir fram á hver þessi viðmið spennutryllsins eru, sem og, af hverju stefnuleysi myndarinnar innan greinafræðanna leiði af sér slíka óánægju íslenskra gagnrýnenda.

Mikið er spáð og spekúlerað um staðla kvikmyndagreinanna, þær reglur sem ber að fylgja innan þeirra og hvenær megi brjóta bág á þeim. Í öllum þessum vangaveltum um stöðu RWWM innan greinar spennutryllisins, hrollvekjunnar eða gamanmyndarinnar gleymist hins vegar að ræða hinar ýmsu hugmyndafræðilegu ádeilur á samfélagið sem handrit Sjóns felur í sér.

Þrátt fyrir að myndin geymi í sér mikinn hrylling, blóð og viðbjóð leikur enginn vafi á að að baki handritinu standi mikil háð og svartur húmor en sjálfur Sjón viðurkennir að eiga erfitt með að hemja hláturinn yfir henni.

Ásgeir H. Ingólfsson bendir réttmætanlega á það í grein sinni, ,,Leikhús fáránleikans“, að kröfur íslensku gagnrýnendanna til RWWM séu óraunhæfar og réttara væri að skoða hrollvekjuna sem húmorískt leikhús fáránleikans sem sýnir okkur mannskepnuna í sínu hlálegasta ljósi.

Það er nákvæmlega þetta sem Sjón leggur upp með í handritinu sem þrátt fyrir allt er enn ein skrautfjöðurin í listahatti hans. Myndin er uppfull af staðalímyndum íslendinga frá sjónarhóli erlendra ferðamanna og öfugt en þar að auki dregur hún háðslega upp birtingarmynd kynjanna sem og samskipti þeirra á milli hvort sem þau eru íslensk eða erlend.

Myndin er auðsjáanlega skrifuð með erlendan markaðshóp í huga og gefst áhorfendunum því kostur á að upplifa martröðina frá sjónarhorni sem flestir ættu að geta tengt við, ferðamannsins.

Angurvær fiðlutónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar undir gömlu myndskeiðunum í upphafi myndarinnar vísar strax óbeint í einhvern þjóðararf sem er síðan staðfestur með stolti og rembingi þegar úrkynjaða, morðsjúka afdalafjölskyldan er kynnt til leiks.

Húmorískt leikhús fáránleikans

Spæld yfir mannabjúgum og nýmjólk minnast þau forfeðra sinna, víkinganna, með stolti en þeir veiddu sér hvali til matar í þá daga áður en friðarsinnar, hvalavinir og Green Peace urðu til. Vegna þeirra fá þau ekki lengur að veiða hvali og neyðast nú til að tálga minjagripi fyrir hvalaskoðunarferðir sem þau vinna úr mannabeinum náttúruunnenda en þá hafa þau veitt sér til matar í stað hvalanna, svo háðslega eru þau í rauninni einstaklega vistvæn sjálf.

Íslendingar eru hins vegar ekki aðeins skilgreindir sem subbulegir geðsjúklingar sem slátra ferðamönnum heldur eru aðrar og mun raunsærri eða klisjukenndari persónumyndir dregnar upp af þeim, til dæmis í fyrsta atriðinu þegar ungu ferðakonunni er boðið í glas af myndarlega miðaldra manninum sem þekkir að sjálfsögðu hljómsveitina Sigurrós persónulega.

Aðstoðarmaður skipstjórans er nauðgari og aumingi sem skilur áhöfnina eftir á skipinu eftir slysið sem skipstjórinn lendir í en hann sjálfur hefur líklega misst stöðu sína á fiskveiðiskipi vegna kvótakerfisins og verður sér því um lifibrauð á gömlum fiskibát sem hann nýtir til hvalaskoðunarferða.

Fjölbreytt úrval erlendra ferðamanna

Úrval erlendu ferðamannanna er ekki síður fjölbreytt en þar ber einnig að líta nokkrar gamlar tuggur á borð við japanska eiginmanninn sem er stöðugt með myndavél og peningabúnt á lofti, tilbúinn að greiða fyrir bestu mögulegu þjónustu á svæðinu. Hann kemur illa fram við konuna sína, kallar hana ljóta og heimska og glápir á allar aðrar konur á bátnum. Þegar slátrunin hefst skilur hann hana eftir þegar hann gerir tilraun til að flýja af hólmi.

Aðstoðarkona hans reynist líka svikul en hennar tilraun til flótta heppnast hins vegar betur. Hún hugsar aðeins um sig sjálfa og blinduð af græðgi skilur hún alla eftir í sláturskipinu eftir að hafa þegið mútur frá sjálfselska fransmanninum.

Samkynhneigði svarti maðurinn sýnir hugrekki og hetjulegt eðli. Hann er síðan tekinn af lífi af landhelgisgæslunni sem telur hann vera ódæðismann skipsins, hvort sem það er útaf því að hann miðar byssu á illmennið sjálft sem horfir hvolpaaugum til gæslumannanna eða vegna þess að hann er svartur á hörund. Hann er alltaf kallaður ,,niggarinn’’ af illmennunum og norrænu kerlingarnar tala um hann sem kjötstykki sem þær gætu léttilega orðið sér úti um vegna valdastöðu þeirra sem sterkar vestrænar nútímakonur.

Eftir að hafa verið lent í hverjum óhugnaðinum á eftir öðrum endar söguhetjan Annette úti á rúmsjó þar sem hinni ljóshærðu mærinni er stillt upp andspænis henni sem sjálfselskri og stjórnsamri tík sem hugsar aðeins um sjálfa sig á meðan hin hjartahlýja og hjálpsama Annette reynir allt sem hún getur til að bjarga þeim báðum.

Það ætti því ekki að skipta máli hvort brandarar séu óhóflegir samkvæmt viðmiði greinarinnar eða að aflífanirnar standist ekki raunsæiskröfur gagnrýnenda þegar sannleikurinn er sá að persónurnar sjálfar eru uppistaða hryllingsins.

Uppfullar af þjóðernisrambi slátra íslensku illmennin erlendu ferðamönnunum sem blinduð af sjálfselsku, kynrembu og græðgi gera allt á kostað hinna til að komast af. Ekki lyftir það manni heldur upp þegar þær persónur sem teljast til söguhetja eru á tilefnislausan hátt aflífaðar í blálokinn.

Þannig er RWWM fyrirmyndar spennutryllir með bæði hryllilegu og háðslegu ívafi sem lætur okkur horfast í augu við eigið eðli.

Advertisements Deila:
Like this:Like Loading... Related