Brjálaði vísindamaðurinn hefur allt frá upphafi vísindaskáldskapar verið samofinn greininni í bæði bókmenntum og kvikmyndum.
FrankensteinÞrátt fyrir að eiginlegur uppruni beggja sé almennt talinn eiga rætur að rekja til skáldsögunnar um Doktor Frankenstein frá 1818 er tildragandinn hins vegar iðnbyltingar 18. og 19. aldar.
Þegar ljóst var að möguleikar vísindanna buðu uppá frelsun vinnuafls og enn fremur mannsandans lá í augum uppi að sú frelsun gæti að sama skapi sviplega snúist upp í andhverfu sína og útrýmt honum. Valdafíkn og brjálæði hefur þar að auki ávallt verið órjúfanlegur þáttur af siðmenningu mannkynsins og því var auðveldlega hægt að líta á vísindin sem nýjan vettvang þess á þeim sviðum.
Að þessu sögðu er hinn brjálaði vísindamaður skáldskaparins óhjákvæmilegur persónugervingur óttans við vísindin en í honum speglast líka vantraust mannsins á eigið kyn og gæsku þess.
Doktor Frankenstein er vissulega sá brjálaði vísindamaður sem hefur haft hvað mest áhrif á þessa sígildu persónuímynd en hann var aftur á móti ekki sá fyrsti sem kom fyrir í skáldskap. Að undanskildum þeim sköpurum sem ekki notast við vísindalegar aðferðir eru til dæmis Prófessor Spalanzani og Coppola í The Sandman eldri.
Prófessor Spalanzi skapar vélbrúðuna OlympiuÍ smásögu E.T.A. Hoffmann, sem kom út tveimur árum áður en Mary Shelly skrifaði Frankenstein, skapa þeir félagar vélbrúðuna ungu og fögru Olympiu. Vélbrúðan er sköpuð í þeim vafasama tilgangi að klekkja á grandalausu fólki eins og sögumanninum Nathaniel sem fellur fyrir bragðinu og verður ástfanginn af henni.
Þarna má því sannarlega greina helstu undirstöðu brjálaða vísindamannsins; að nýta þekkingu sína á vísindum og tækni til að sköpunar á röngum forsendum. Spalanzani virðist þá njóta þess að horfa upp á fólk gangast við Olympiu sem alvöru stúlku en Coppola er samkvæmt Nathaniel aðeins á höttunum eftir honum til að gera honum lífið leitt.
Töluverð líkindi eru með þeim Prófessor Spalanzani og Doktor Frankenstein en báðir eru svo uppteknir af sköpunarmætti sínum að þeir huga ekki að mögulegum afleiðingum hans.
Á meðan þessi þáttur er ekki endilega helsta uppistaðan í sögu Hoffman leggur Shelly aftur á móti sérstaka áherslu á hann. Drifkraftur Frankenstein virðist einungis vera hinn guðlegi máttur sem hann rembist við að sanna fyrir sjálfum sér að hann búi yfir til að geta sýnt öðrum fram á hann seinna meir.
Guðlegum mætti fylgir hins vegar ábyrgð sem Frankenstein er ekki tilbúinn að taka þegar sköpunarverk hans vaknar loks til lífsins og er ekki eins og hann hafði gert ráð fyrir. Staðreyndin er sú að Frankenstein hafði í raun ekkert gert ráð fyrir einu né neinu og er dómgreindarleysi hans því með ólíkindum samanborið við þá vitsmuni sem sköpunarverkið krefst.
Það er þó ekki endilega dómgreindar- eða ábyrgðarleysið sem einkennir brjálaða vísindamanninn heldur skortur á siðferðiskennd. Hvorki Frankenstein né Spalanzani virðast því búa yfir skynbragði á hvað teljist rétt og rangt eða gott og slæmt.
Eftir að Frankenstein kom út mátti víðsvegar greina þennan siðferðiskenndarskort hjá fulltrúum vísindanna í vísindaskáldskap sem og annarskonar skáldskap.
Í leikritinu R.U.R. eftir Karel Čapek koma meira að segja tvennir slíkir fyrir, Rossum eldri og Rossum yngri. Á meðan sá eldri skapar vélþjónana í svipuðum tilgangi og Frankenstein, það er að segja til að skopstæla guð og enn fremur afsanna tilvist hans, er sá yngri tilbúinn að gera hvað sem er til að græða á framleiðslu þeirra. Báða skortir siðferðiskennd en á mismunandi forsendum.
Brjálaður; vísindamaðurinn RotwangÍ kjölfið má benda á Rotwang í Metropolis en hann skapar rétt eins og Spalanzini vélbrúðu sem býr yfir þeim eiginleika að tæla meinlausa menn. Þó Vél-Mariu sé upphaflega ætlað að vera staðgengill fyrrum ástkonu Rotwang sem er vissulega siðlaust á sinn hátt eru örlög hennar bundin eyðileggingu og kynsvalli. Ástæðan siðlausi auðvaldsseggurinn Joh Frederson sem með valdi sínu yfirtekur sköpunarverk Rotwang og beitir því í eigin þágu.
Eins og sjá má á þessum tveimur síðustu dæmum er önnur og ekki síður táknræn ímynd, gáðuga kapítalistans, tekin að myndast samhliða brjálaða vísindamanninum í skáldskap á þessum tímapunkti. Þá má líka gera ráð fyrir því að báðar persónuímyndir sé einskorðaðar við karlkyn.
Þrátt fyrir að brjálaði vísindamaðurinn sé í lang flestum tilvikum karl kemur þó fyrir að hann sé framsettur sem kvenmaður. Engu að síður er það sjaldgæft þar sem arfleið konunnar er allt önnur innan hefðar vísindaskáldskaparins.
Annars vegar er hún framsett sem auðmótanleg dúkka en það virðist hafa verið sérstaklega vinsælt í árdaga greinarinnar og hins vegar er hún rödd samvisku og siðgæðisvörður vitundarinnar.
Siðgæðisvörður vitundarinnar; RipleyDæmi um slíkar persónur eru Maria í Metropolis og Helena í R.U.R. en þær má jafnframt finna í nýlegri verkum eins og til dæmis Sarah Connor í Terminator myndunum og Ripley í Alien myndunum. Hún hefur því í seinni tíð orðið rétt eins og gráðugi kapítalistinn óaðskiljanleg brjálaða vísindamanninum sem og táknheimi vísindaskálskapar.
Þrátt fyrir að þessar persónuímyndir séu í stöðugri mótun er greinin rótgróinn og því eru helstu einkenni brjálaða vísindamannsins enn í dag þau sömu og við upphaf greinarinnar.
Þau dæmi sem hér hafa verið tekin fyrir hafa því haft takmarkalaus áhrif á birtingarmynd þessara fulltrúa vísindanna í nútíma vísindaskáldskap. Þeir hafa að vísu flestir verið endurmótaðir samkvæmt breytilegum kröfum samtímans en forsenda þeirra er alltaf sú sama.
Hinn brjálaði vísindamaður nýtir enn þekkingu sína á vísindum til að sköpunar á röngum forsendum vegna skorts á siðferðiskennd. Hann er jafnframt ennþá óhjákvæmilegur persónugervingur óttans við vísindin og speglar vantraust mannsins á eigið kyn.
Í raun er hálf ótrúlegt að þessi gildi séu ennþá óbreytt eftir rúmlega 200 ára þróun greinarinnar en þau sýna jafnframt fram á hversu lítið hinn samfélagslegi þáttur vísindanna hefur þróast meðfram ótrúlegum framvexti tækninnar sjálfrar.
Ljóst er að mannkynið er ennþá að berjast við afleiðingar iðnbyltingarinnar og hefur ekki enn verið sannfært að fullu um ágæti vísindanna eða fulltrúa þeirra.
Heimildir
Daniel Dinello, Technophobia! Science Fiction Visions of Post-human Technology (Austin: University of Texas Press, 2005).
E.T.A. Hoffmann, The Sandman. 1816 (Feedbooks).
Fritz Lang, Metropolis (1927).
Karel Capek, R.U.R, 1921 (Feedbooks).
Mary Shelly, Frankenstein, 1818 (Feedbooks).
Advertisements Deila: