Hvað er sæborg?

Skilgreiningar og saga

Samkvæmt Enskri-íslenskri orðabók er sæborg (e. cyborg) ,,lífvera, annað hvort maður eða dýr, tengd við tæki sem stjórnar eða mælir líkamsstarfsemina í tilraunaskyni“. Skilgreiningin er að vissu leyti rétt en takmarkast hins vegar við aðeins lítinn hluta af þeirri útlistun og hugmyndafræði sem sæborgin býður í raun upp á.

Orðið sem er samsuða hugtakanna stýrifræði (e. cybernetics) og lífvera (e. organism) var upphaflega búið til árið 1960 af lífeðlisfræðingnum Manfred Clynes og geðlækninum Nathan Kline og notað yfir þann viðbúnað sem manneskjan varð að tileinka sér til að geta þrifist handan jarðarinnar.

Sem tæknileg lausn við höftum þess líkamlega var sæborgin þó ekki aðeins bylting á sviði tæknivísinda heldur bauð hún einnig upp á nýjar víddir fyrir mannsandann og göfgun hans. Þannig taldi Clynes það mögulegt að heilinn myndi í fjarlægri framtíð afnema líkamann alfarið í kjölfar slíkrar þróunar.

Hugmyndin er því ekki ósvipuð þeirri sem líffræðingurinn og femínistinn Donna Haraway hefur um sæborgina, hlutverk hennar og möguleika.

Í stefnuyfirlýsingu Haraway frá árinu 1985 endurskilgreinir hún hugtak þeirra Clynes og Kline með aukna áherslu á þann samfélagslega ávinning sem það býður upp á. Hún bendir á að sæborgin sé mun eldri en hugtakið sjálft og eigi sér langa og margþætta hefð í til dæmis skáldskap.

Afródíta gæðir myndstyttu Pygmalion lífi

Í ljósi þess er til dæmis hægt að rekja afbrigði sæborgarinnar allt aftur til goðsagna Forn-Grikkja þegar gyðjan Afródíta gæðir myndastyttu myndhöggvarans Pygmalion lífi og hann verður ástfanginn af henni eða þegar guðinn Hefaistos mótar risavaxna málmmennið Talos í hernaðarlegum tilgangi.

Sæborgin er því ekki endilega bundin við nútíma tækni eins og kenning þeirra Clynes og Kline sýnir fram á því hugmyndir um stýrifræði af ýmsu tagi voru komnar fram löngu áður þó þær hafi ekki verið vísindalegar. Góleminn er til dæmis gott dæmi um slíka sæborg en hann samkvæmt goðsögum gyðinga leir sem var mótaður í einhverskonar ímynd og gæddur lífi.

Ef skilgreiningin á hugtakinu er aftur á móti svo einföld að hún skilyrðist einungis við efnismótun og lífanda má jafnvel gera ráð fyrir að Adam og Eva hafi verið sæborgir líka. Því er hægt að draga ákveðna línu við þann skáldskap sem mótaðist í kjölfarið á iðnbyltingunni og tæknivísindum.

Fyrsta dæmið um vísindalega sæborg kemur frá Þýskalandi árið 1816 þegar vélbrúðunni Olympiu bregður fyrir í smásögu E.T.A. Hoffmann The Sandman. Olympia er vélræn en hefur mannlega ásjónu sem er svo raunveruleg að sögumaðurinn telur hana vera alvöru konu.

Vél-Maria

Vélbrúðan var vinsæl í árdaga vísindaskáldskaparins sem og hin sjálfsagða hugmynd um að móta konur. Sú frægasta er vafalaust Vél-Maria í kvikmynd Fritz Lang Metropolis sem er svo fýsileg að karlmenn missa vitið yfir henni.

Skáldskapar sæborgin er þó ekki bundin við véltækni og þvert á móti er ein sú frægasta og áhrifaríkasta alfarið lífræn. Skrímsli Frankenstein var samsett úr mörgum mismunandi líkamspörtum dauðra manna og dýra sem voru saumuð saman og lífguð við með rafmagni.

Vélþjónarnir í R.U.R. voru líka lífrænir þó þeir væru fjöldaframleiddir með vélrænni tækni en færibandið átti í seinni tíma eftir að verða vinsæl framsetning á hlutverki og tilgangi sæborgarinnar.

Þrátt fyrir að viðhorf mannsins gagnvart tækni, vísindum og eigin siðferði hafi ekki verið jákvætt með tilkomu vísindalegu sæborgarinnar var möguleikinn aftur á móti til staðar.

Vélþjónar Asimovs buðu upp á velmegun og frelsun

Vélþjónar Isaac Asimov í I, Robot sýndu til dæmis fram á að sæborgin þurfti ekki að vera litin hornauga þrátt fyrir vafasaman uppruna hennar. Örlög hennar þurftu heldur ekki að vera bundin eyðileggingu og upplausn þar eiginleikar hennar buðu upp á mun meiri velmegun og jafnvel frelsun.

Með tilkomu stafrænnar tækni er hægt að segja að önnur þáttaskil hafi orðið innan sögu sæborgarinnar í skáldskap þar sem hún býður upp á mun raunhæfari framtíðarsýn en þær sem á undan höfðu komu. Vissulega hefur vélbrúða Hoffmann og vélþjónar Asimovs þótt líkleg til tilurðar í sínum tíma og að vissu leiti eru þeir seinni það enn en það sem greinir þau frá stafrænu tækninni er að hún er nú þegar orðin möguleg.

Framtíðarsýnir á borð við þá sem kemur fram í tímamótaverkinu Matrix er því bæði orðin mun röklegri og ítarlegri en áður enda internetið orðið núþegar orðinn stór þáttur af lífi okkar. Þá bendir Haraway einmitt á að vísindaskáldskapur leggi á þennan hátt línurnar fyrir raunveruleikann og gefi okkur forsmekkinn af því sem koma skal í þróun vísinda og tækni.

Samkvæmt Haraway er sæborgin nú þegar orðin mjög stór hluti af daglegu lífi okkar. Það sem hún á við svipar í raun mjög til skilgreiningar Clynes og Kline og felst í því að öll sú tækni sem við mennirnir hagnýtum til að halda okkur á lífi eða auðvelda okkur það megi útlista sem sæborg.

New York; sæborg

Í ljósi þess eru öll lyf til dæmis tæknilegur þáttur sæborgar en einnig má benda á stoðtæki, hjólastóla og gangráða. Hversdagslegri hlutir eru til dæmis gleraugu, armbandsúr og jafnvel bílar og þá má líka flokka stofnanir, samgöngukerfi og borgir undir þennan hatt. Það virðist því hálf ómögulegt fyrir nútímamanneskju að vera ekki sæborg þar sem tæknin er búin að yfirtaka flesta þætti samfélagsins.

Haraway gerir sér grein fyrir þessu og með þetta að leiðarljósi talar hún um að framtíð mannkynsins sé alfarið bundið sæborginni. Þá á hún ekki við að við munum halda áfram að hagnýta tæknina á sama hátt og við gerum í dag heldur að við munum sameinast henni alfarið. Þessi samruni býður upp á frelsun mannkynsins frá vinnuafli og enn mikilvægara frelsun mannsandans.

Með afnámi hins holdlega líkama munu takmörk tvíhyggjunnar loks þurrkast úr sem og þau samfélagslegu mein sem þeim fylgir eins og til dæmis kynjamisrétti, kynþáttamisrétti og annars konar fordómar.

Sæborgarframsýn og jafnframt heimssýn Haraway er á þennan hátt mun jákvæðari en margur af þeim skáldskap sem þreifað hefur fyrir sér á vettvangi sæborgarinnar. Það er hins vegar undir okkur mannkyninu komið að velja réttu leiðina.

 

Heimildir

Daniel Dinello, Technophobia! Science Fiction Visions of Post-human Technology (Austin: University of Texas Press, 2005).

Donna Haraway, „A Cyborg Manifesto: Science, technology and socialist-feminism in the late twentieth century“. The Cybercultures Reader (London: Routledge, 2000).

E.T.A. Hoffmann, The Sandman. 1816 (Feedbooks).

Fritz Lang, Metropolis (1927).

Isaac Asimov, I, Robot (New York: Bantam Books, 2004).

Karel Capek, R.U.R, 1921 (Feedbooks).

Mary Shelly, Frankenstein, 1818 (Feedbooks).

Advertisements Deila:
Like this:Like Loading... Related